Hjólaslys/Slys á rafmagnshlaupahjóli
Tryggingafélög bjóða upp á ýmis konar fjölskyldutryggingar og í mörgum þeirra er slysatrygging í frítíma innifalin. Slík trygging greiðir bætur vegna slysa sem hjólreiðamenn verða fyrir í frístundum á götuhjóli og þeir sem eru á rafmagnshlaupahjólum. Afreksmenn í hjólreiðum eða fjallahjólreiðamenn þurfa þó að bæta við sig sérstakri viðbótartryggingu.
Þeir sem lenda í reiðhjólaslysi í frítíma eiga yfirleitt lakastan rétt og í sumum tilvikum jafnvel engan. Þá gilda oft einungis framangreindar frítímaslysatryggingar sem eru innifaldar í fjölskyldutryggingum tryggingafélaga. Þó geta slysatryggingar launþega gilt, ef hinn slasaði fellur undir kjarasamning sem gerir ráð fyrir bótum í frítíma, eða slysið gerist á leið viðkomandi til eða frá vinnu. Ef viðkomandi er með almenna slysatryggingu gildir hún um reiðhjólaslys/slys á rafmagnshlaupahjóli í frítíma sem og í vinnu.
Þó er vakin athygli á því að ef aðili verður fyrir reiðhjólaslysi/slysi á rafmagnshlaupahjóli í frítíma, getur það verið bótaskylt úr ábyrgðartryggingu, ef einhver annar ber ábyrgð á slysinu, beint eða óbeint. Ef aðili slasast í umferðarslysi, t.d. í árekstri við bíl, mótorhjól eða annað skráningarskylt ökutæki, getur hann þannig átt rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu ökutækisins.