Viðurkennd bótaskylda vegna vinnuslyss sökum vanbúnaðar á gólflista.

Tjónþoli slasaðist í starfi á gistiheimili þegar hann rak tá í állista með þeim afleiðingum að hann féll niður stiga og slasaðist. Í málinu lá fyrir að slysið var ekki rannsakað af Vinnueftirlitinu þar sem það var ekki tilkynnt um það þegar það átti sér stað. Einnig lá fyrir að umræddur állisti var fjarlægður fljótlega eftir slysið. Í dómi Landsréttar var talið ótvírætt að rannsókn Vinnueftirlitsins áður en listinn var fjarlægður hefði verið til þess fallin að varpa ljósi á aðstæður og ástæður slyssins. Vegna vanrækslu vinnuveitanda á því að stuðla að því að slíkar upplýsingar fengust var lögð til grundvallar frásögn tjónþola um að listinn hafi verið laus og staðið upp úr gólfinu. Þá var talið að það að laus listi skagaði upp fyrir parketið við gólf efri hæðar, vikið frá því sem gera mátti kröfu um.

Féllst Landsréttur á að vinnuveitandi hafi brotið gegn almennum skyldum sem mælt er fyrir um í 13. gr., 37. og 42. gr. laga nr. 46/1980 og 6. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða. Var krafa tjónþola um viðurkenningu á bótaskyldu vinnuveitanda tekin til greina. Guðbjörg Benjamínsdóttir lögmaður flutti málið.

Unnt er að lesa dóminn í heild sinni á heimasíðu Landsréttar hér.

Vísir fjallaði um dóminn hér.