Bótaskylda Sjóvá viðurkennd vegna áreksturs hjólareiðamanns og bifreiðar.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag var viðurkennd bótaskylda tryggingafélags úr ökutækjatryggingu bifreiðar vegna áreksturs hjólreiðamanns og bifreiðarinnar.

Í málinu var aðallega deilt um það hvort tjón hjólreiðamannsins hefði hlotist af notkun ökutækis, um orsakatengsl og nokkur álitaefni sem varða sönnun. Áreksturinn varð á svokallaðri Flóttamannaleið; sem er nokkuð vinsæl til hjólreiða. Slysið átti sér stað þar sem gatan er nokkuð brött og nálægt blindri beygju. Niðurstaða dómsins var sú að hættueiginleikar bifreiðarinnar sem hjólreiðamaðurinn mætti í umrætt sinn, hafi haft áhrif á þá ákvörðun hjólreiðamannsins að beygja nálægt vegkantinum „enda alkunna að mikil hætta getur stafað af árekstri hjólandi vegfaranda við bifreið“. Taldi dómurinn ljóst að sá árekstur sem varð þegar hjólreiðamaðurinn rakst í bifreiðina, eftir að hann féll af hjólinu, tengdist því að bifreiðin var í notkun í umrætt sinn.

Bótaskylda vátryggingafélagsins úr ökutækjatryggingu bifreiðarinnar var viðurkennd og ekki var fallist á sjónarmið vátryggingafélagins um að lækka ætti bætur vegna þess að hjólreiðamaðurinn hafi af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi verið meðvaldur að slysinu.